Þegar við erum búin að heyra nýja sögu og skoða hlutina í töfrapokanum, fá börnin blað sem þau skrifa orðin á. Þau hafa fyrirmynd, þannig að þau þurfa í sjálfu sér ekki að vita hvernig orðið er skrifað. Þau skrifa orðin í hvaða röð sem þau vilja. Ef börnin eru síðan ekki viss um hvað orð þau eiga eftir að skrifa er góð hugmynd að segja þaim að bera saman orð á spaldi við þau orð sem þau hafa skrifað til að sjá hvort það sé nú þegar á blaðinu eða vanti.

Markmiðið er ekki endilega að æfa börnin í að skrifa og/eða lesa ákveðin orð, heldur fyrst og fremst að þjálfa þær fínhreyfingar sem þarf til að móta stafina. Auk þess fá þau þjálfun í að bera saman orð og fyrirmynd, einkum þegar þau þurfa að finna út hvað þau eru búin að skrifa og hvað er eftir af listanum.

Þegar við vorum að gera þessa æfingu einu sinni hrópaði allt í einu eitt barnið upp fyrir sig: "Þetta byrjar allt á K!" - þrátt fyrir að það hafi heyrt margar stafagaldurssögur sem allar enda á að það þurfi að taka upp úr töfrapokanum hluti sem byrja á sama bókstaf. Það er góð áminning um það að það er munur á því að þekkja frasann að eitthvað "byrji á sama staf" og virkilega að skilja hvað í því felst. Eins og dæmið sýnir getur þessi æfing einmitt stuðlað að slíkum skilningi.