Töfratákn galdrakarlsins eru með öflugan galdramátt. Til að búa til töfratákn þarf að gera sex punkta og setja línu á milli þeirra allra. Þá myndast það sem stærðfræðingar kalla fullskipað net með sex hnútum. Eftir því hvar maður setur punktana koma út mismunandi myndir og því er hægt að gefa táknunum mismunandi töfraeiginleika eins og t.d. sterkur, fljótur, hugrakkur eða skemmtilegur.

Sagan um töfratáknin

Þið hafið kannski heyrt að í ævintýrunum segir maður oft að sjö sé töfratala, en vondi galdrakarl okkar var með allt aðra happatölu. Viljið þið giska hver hún var? ... Það var númerið sex. (Maður þarf að passa sig svolítið þegar maður skrifar 6 vegna þess að það er svo auðvelt að ruglast á því og 9. Hvernig sér maður muninn?)

Og af því að hann var með happatöluna sex, þá vildi hann búa til töfratákn með sex punktum. Hann setti sex punkta og gerði svo strik á milli allra punktanna.

En nú þurfti hann að passa sig, því að hann gat auðveldlega klúðrað þessu. Ef hann gleymdi að setja einhvers staðar strik á milli punkta (5 strik frá hverjum punkti!) þá gat hann til dæmis allt í einu endað með töfratákn sem gerði hann latan í staðinn fyrir sterkan, eða lítinn í staðinn fyrir hugrakkan!

Galdrakarlinn gerði sex mismunandi töfratákn sem þið getið séð hérna og var mjög ánægður því að hvert tákn var með töfraeiginleika.

Nú er komið að ykkur að búa til ykkar eigin töfratákn eins og galdrakarlinn gerði. Og þíð fáið líka að velja hvaða töfraeiginleika þið viljið láta táknið ykkar vera með.

Vinnuferlið

Á myndskeiðinu hér fyrir neðan sést vinnuferlið vel. Þegar ég var búin að segja börnunum söguna bjuggum við til eitt tákn í sameiningu. Það var gert til þess að börnin vissu hvernig ætti að tengja punktana áður en þau fóru svo að vinna sjálfstætt í litlum hópum að því að gera eigin tákn.

Börnin lærðu líka að í lokin ættu að vera fimm línur út frá hverjum punkti. Ef það var ekki þá var það vísbending um að þau væru ekki búin að tengja þá alla, og þá myndi galdurinn ekki virka.

Þegar töfratáknin voru tilbúin hjálpuðust börnin að við að mála þau og ákveða töframáttinn sem þau ættu að hafa.

Myndskeið

Myndir úr vinnustund