Fyrsta sagan um galdrakarlinn

Ég bjó til upphafssögu fyrir Stafagaldur sem er hægt að nota svo að börnin átti sig betur á hvernig sögustundirnar fara fram og viti þá hvað á að gera seinna þegar kemur að því að þau séu skrifuð inn í sína sögu. Í upphafssögunni flýgur galdrakarlinn yfir leikskólann og stelur öllum útileikjum af því að hann þolir ekki að sjá krakkana hafa gaman af þeim. Skólastjórinn verður síðan að fara alla leiðina til hans og segja honum að gjöra svo vel að skila útileikjunum aftur.

Okkur fannst svo gaman að fá Sigrúnu skólastjóra í heimsókn í samverustundinni og henni tókst að sjálfsögðu að bjarga deginum og fá galdrakarlinn til að skila öllu útidótinu. Hún reyndi líka að fá hann til að koma að leika sér með krökkunum í leikskólanum í stað þess að vera alltaf að stríða og stela, en hann var ekki alveg tilbúinn til þess.

Einu sinni fyrir ekki svo löngu var vondur galdrakarl sem flutti inn í kastala lengst í fjarska. Með sér hafði hann ekkert nema galdrakústinn sinn, galdrahattinn, galdrasprotann, galdrapottinn, galdrakött og kannski einhverja fleiri galdrahluti...

Það eru ekki margir sem vita hvernig maður getur fundið galdrahöllina hans, en ég skal segja ykkur það. Fyrst verður maður að fara í gegnum dimman skóg þar sem maður heyrir töfrafugl syngja, síðan fer maður í kringum froskavatnið, framhjá draugahúsinu og þarna á bak við háu fjöllin, lengst í fjarska, þar er kastalinn. Ef þið hlustið vel þá heyrið þið hann hlæja. Á ég að segja ykkur af hverju hann er að hlæja svona ferlega?

Munið þið að ég sagði að hann væri vondur? Sko, kannski er hann ekkert voðalega vondur, en hann var samt alltaf að gera frekar vonda hluti eins og að hrekkja, stríða og stela. Hann kann ekki að haga sér öðruvísi. Og honum finnst það bara gaman. Þess vegna hlær hann. En vitið þið hvað?

Þegar maður hagar sig svona illa, þá er ekki hægt að eignast vini. Vinátta krefst þess að maður komi vel fram við aðra! Annars nennir enginn að leika við mann! Við vitum það - en þessi galdrakarl var bara alls ekki búinn að læra þetta. Og af því að enginn vildi vera vinur hans var hann svolítið einmana.

Og ef maður á enga vini og hefur engan til að leika sé við, þá getur verið sérstaklega sárt að horfa upp á að aðrir eru að leika sér og hafa gaman. Og þess vegna varð galdrakarlinn í svo mjög vondu skapi þegar hann flaug yfir leikskólann okkar á galdrakústinum sínum og sá ykkur börnin vera úti að leika. Og hann ákvað að stela öllu sem þið voruð að leika ykkur að. Hann tók fram töfrasprotann sinn, sveiflaði honum í hring og hrópaði: „Simsalabimm“ – eða einhver önnur töfraorð sem ég þekki ekki. Og á augnabliki var allt dótið og allir leikir horfnir...

Framhaldið

Þegar sagan er búin spinnum við framhaldið eftir þessum ramma þar sem skólastjórinn er aðalpersónan í sögunni og situr fremst hjá sögumanni og kastalamyndinni:

Spjöldin með útileikjunum

Í töfrapokanum eru 10 dæmi um innileiki

  • Spjöldin með útileikjum verða sett á kastalann og við spjöllum um hvaða leikjum galdrakarlinn hefur stolið.

  • Náum í Sigrúnu skólastjóra (2-3 börn fara að ná í hana).

  • Börnin útskýra fyrir hana hvað hefur gerst og Sigrún segir: „Þetta gengur ekki. Nú verð ég að fara til hans og segja honum að skila öllum útileikjum aftur. Af því að í okkar leikskóla viljum við vera mikið úti að leika!“

  • Börnin segja henni leiðina til kastala galdrakarlsins: Í gegnum dimman skóg, í kringum froskavatnið, framhjá draugahúsinu og á bak við háu galdrafjöllin.

  • Sigrún veit að hún þarf að vera hugrökk svo að hún ætlar að grípa gæsina (G-Æ-S = ég GET - ég ÆTLA - ég SKAL). Tekur e.t.v. Vináttu-bangsann Blæ með sér í för því að hann kennir okkur hugrekki.

  • Á leiðinni til galdrakarlsins tekur Sigrún eftir því að lítill kópur hefur flækst í neti í fjörunni og er í miklum vanda. Sigrún hjálpar kópnum að losna og hann er þakklátur og bendir henni á að grafa í sandinn. Þar finnur hún töfrapoka sem hún tekur með sér áfram. Töfrapokinn er þeirrar náttúru að maður getur alltaf dregið upp úr honum nákvæmlega það sem maður þarf mest á að halda.

  • Sigrún fer nú alla leið til kastalans. Hún herðir upp hugann (grípur aftur gæsina) og bankar. Galdrakarlinn er pirraður. Nennir ekki að leika úti. Finnst vont veður. „Hvernig nennið þið að leika svona mikið úti í rigningu og roki?“. Hann samþykkir að gefa Sigrúnu útileikina til baka ef hún gefur honum í staðinn eitthvað sem hann getur leikið með inni.

  • Sigrún dregur 10 hluti upp úr töfrapokanum - leggur á stjörnurnar á teppinu og við klöppum atkvæði.

  • Við klöppum síðan fyrir Sigrúnu sem bjargaði deginum! Hlökkum til að fara út að leika sem fyrst :)

Síðast breytt
Síða stofnuð