Áhorfendur

Við segjum oftast galdrakarlssögurnar í samverustund eftir mat, og þá fá öll börn sem eru ekki í hvíld að vera áhorfendur. Það eru samt bara elstu börnin sem fá að vera skrifuð inn í ævintýrin og segja söguna með okkur en 3-4 ára börnunum finnast stundirnar ekki síður skemmtilegar og hafa gaman af geðvonda galdrakarlinum og töfrapokanum með öllum hlutunum sem byrja á sama bókstaf.

Þegar börnin eru komin á síðasta ár í leikskólanum og hafa verið árhorfendur í 1-2 ár eru þau með það alveg á hreinu hvað Stafagaldur gengur út á og eru alltaf tilbúin og spennt þegar kemur að þeim.

Yngri börnin dást að elstu börnunum og geta varla beðið eftir að bjarga málunum og vera í aðalhlutverki og í sviðsljósinu. Fyrir elstu börnin gerir það stundina ennþá mikilvægari að hafa þessa yngri áhorfendur. Þau fá að njóta sín og efla sjálfsmyndina fyrir framan stærri hóp sem fylgist spenntur með. Við höfum tekið eftir því að í þau skipti sem aðeins elstu börnin hafa fylgst með er greinilegur munur á áhuga og spennu.

Þessar stundir eru hið skemmtilegasta hópefli fyrir deildina þegar kennarar og börn hjálpast að og skemmta sér að leysa þrautina.

Síðast breytt
Síða stofnuð