Ó-saga
Loksins tókst mér að klára Ó-söguna - sem var heppilegt því að það var komið að því að nota hana. En það þurfti svo sannarlega að leggja höfðið í bleyti til að fá allt til að smella. Hverju átti galdrakarlinn að stela sem byrjar á Ó? Hvaða hjálpardýr átti barnið að vera með? Hver var í vanda og myndi gefa barninu töfrapoka? Og hvað átti að setja í töfrapokann? Er yfirhöfuð hægt að finna tíu hluti sem byrja á Ó?
Söguþráður
Í Ó-sögunni stelur galdrakarlinn öllum óskum og öllu sem er hægt að óska með: óskasteinum, óskabrunni, óskabeini, stjörnuhrapi, biðukollu, fjögurra laufa smára, töfralampa, afmæliskertum, regnboga og fiðrildi í lófa. Barnið sem er skrifað inn í söguna fær hjálp frá ósýnilegum töfradreka. Saman hjálpa þau Óðni við að sættast við hrafnana sína og þau fá töfrapoka að launum. Þegar komið er til kastala galdrakarlsins segir barnið honum að skila öllu sem hann stal, en hann heimtar að fá í staðinn 10 hluti sem byrja á Ó. Þetta gengur allt og sagan endar vel.
Sagan í pdf (kk og kvk)
Prentið PDF-skjalið í viðeigandi kyni út og skrifið nafn barnsins í tómu reitina í sögunni.
Spjöld fyrir kastalann
Ég valdi 10 hluti sem tengjast því að óska sér. Það er hægt að sjá þá á þessum myndum. Ef maður vill nota söguna er hægt að prenta út pdf-skjalið með þeim, klippa til og plasta.
Innihald galdrapokans
Af því að það er svo erfitt að finna hluti sem byrja á Ó þá valdi ég á endanum að prenta út myndir í staðinn og setja þær í töfrapokann. Í skjalinu hér fyrir neðan eru aðeins fleiri en 10 hlutir, en maður velur þá bara þá sem maður telur að barnahópurinn þekkir best.
- ól
- ólífur
- óreganó
- Óli prik
- Ólafur snjókarl (úr Frozen)
- órói
- óperusöngkona
- Óskarsverðlaun
- Ólympíuleikamerkið
- ólétt kona
- órangútan
- ópal
- ófreskja
- óbó
Af því að það er ekki alveg jafn gaman fyrir barnið að taka spjöld upp úr pokanum og að taka hluti, þá fann ég upp á því að setja í söguna að barnið er með alvöru óskastein sem það stendur Ó á og sem galdrakarlinn stelur. Barnið fær þá steininn aftur þegar sögunni lýkur og fær að taka hann með sér heim.