Í saumahorni Guðrúnar

Þessi strákur var mjög ánægður með að fá að sauma galdrakarl í saumahorninu hennar Guðrúnar Björnsdóttur en hún hefur í mörg ár boðið Urðarhólsbörnunum upp á fjölbreytt og skapandi textilnám. Ég var að fylgjast með þeim til að myndskrá ferlið og ég dáðist alveg að því hvað strákurinn var einbeittur og þolinmóður og vandaði sig mikið. Þetta var sannkölluð gæðastund! Galdrakarlinn hans varð einstaklega fallegur og í myndskeiðinu sem ég setti saman sést vel hvernig hann vann verkið.

Áður en strákurinn tók myndina sína heim settist hann hjá mér og samdi litla sögu um galdrakarlinn sinn. Því miður finn ég ekki blaðið lengur þar sem við skrifuðum söguna niður en vonandi get ég bætt henni við síðar.

Guðrún Björnsdóttir

Ég bað Guðrúnu um að lýsa nokkrum helstu kostunum við textílvinnuna, og hún sendi mér þetta um hæl:

Það sem er svo skemmtilegt við textílnámið og gefandi fyrir mig sem kennara, er hvað ég er meðvituð um það nám sem börnin eru að tileinka sér. Þetta eru gæðastundir sem innihalda heildstætt nám þvert á námssvið leikskóla. Viðfangsefnin eru margvísleg, þau eru: sjálfsprottin, tengd sögu og menningu, þematengd svo eitthvað sé nefnt.

Börnin eru að skapa sína eigin hugsmíð með fjölbreyttum efnivið og í leiðinni að efla sig til hugar og handa, styrkja úthald og einbeitingu. Þau eru að taka inn hugtök sem tengjast læsi og samskiptum, stærðfræði og vísindum. Þau eru að drekka í sig handverksmenningu, sagnamenningu, menningu landsins.

Þau eru að efla sjálfsmynd sína með trú á eigin getu. Þetta er fullkomin núvitund. Það eru öll börn að njóta sín í textíl í Urðarhóli. Þetta er það skemmtilegasta og þakklátasta sem ég hef unnið í leikskóla. Það ætti að vera textílnám í öllum leikskólum.

Myndskeið

Viltu koma að sauma?

Árið 2017 gaf Guðrún Björnsdóttir út fallega bók um skapandi textilvinnu með börnum. Bókin heitir "Viltu koma að sauma?" og hefur að geyma hugmyndir og aðferðir að fjölbreyttum textílverkefnum sem henta vel fyrir leikskólabörn sem og börn í fyrstu bekkjum grunnskóla.

Bókin fæst hjá Bóksölu Stúdenta en einnig má kaupa hana beint hjá Guðrúnu.

Bókin hennar Guðrúnar

Í lýsingunni á bókinni segir meðal annars:

Textílnám er góður grunnur að samþættu og skapandi skólastarfi. Í gegnum textílverkefnið “Viltu koma að sauma” sem fram fór á Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi er góð reynsla. Textílvinnan styður við skemmtilegt nám þvert á námsgreinar, s.s. málþroska, hljóðkerfis-, stærðfræði-og hugtakaskilning, orðaforða, fínhreyfingar og skapandi hugsun.

Í textilvinnunni eru börnin að öðlast grunnfærni við að nota ýmiss áhöld og efnivið sem tengjast vinnunni s.s. nál, skæri, þráður o.fl. það leiðir þau síðan til þroska í þeirri vinnu sem þau eru að takast á við og styrkir þar með ályktunarhæfni og rökhugsun. Þau eru að æfa samhæfingu hugar og handa. Það er stuðlað að sterkari sjálfsmynd sem er nausynleg í öllu námi og velgengni í lífinu. Börnin eru mjög áhugasöm fyrir þessa vinnu og stolt af verkum sínum.

Síðast breytt
Síða stofnuð