Ég og drekinn

Ímyndið ykkur að þið séuð stödd í ævintýri með dreka í. Hvers konar dreka sjáið þið fyrir ykkur? Eruð þið vinir? Er hann góður eða vondur? Eða er hann kannski töfradreki? Búið til mynd þar sem sýnir drekann og ykkur saman og gerið síðan sögu um myndina.

Við gerðum þetta í blönduðum hópi með 4-6 ára börnum. Ferlið var mjög gefandi og skemmtilegt fyrir alla. Við vorum nýbúin að heyra söguna um töfradrekann Púff og syngja lagið um hann þannig að það hjálpaði okkur að kveikja á ímyndunaraflinu.

Allir eru sofandi í kastalanum og drekinn er að læðast og reyna að spúa eldi á kastalann. Konungurinn á heima í kastalanum, hann er góður. Drekinn er vondur. Ég er ekki hræddur að sitja á honum af því að hann er drekinn minn. Það var bara hinn helmingurinn af kastalanum eftir eldinn. Konungurinn flúði bara í burtu og drekinn flaug bara með mig heim til sín í höllina sína. Það var gaman í höllinni hans af því að þar var fullt af drekum sem voru vinir mínir.

1. skref: Teikna myndina

Þegar börnin voru búin að hugsa smástund um hvað þau vildu láta drekann gera byrjuðu þau að teikna myndina. Oft vildu börnin fljúga á drekanum eða berjast við hann með sverði, en það voru líka dæmi um að þau vildu hafa drekann sem gæludýr eða leika við hann.

2. skref: Lita myndina

Við ákváðum að lita drekann og önnur meginatriði með trélitum til að draga þau betur fram. Það var frábært að sjá hvað börnin voru upptekin af verkefninu og vönduðu sig við það.

3. skref: Mála myndina

Við máluðum síðan bakgrunninn í myndinni með vatnslitum. Pappírinn hafði verið festur á borðið með málningarlímbandi þannig að það kom fínn hvítur rammi utan um myndina.

4. skref: Taka ljósmynd og prenta út

Við tókum mynd af börnunum einu í einu og þau settu sig í stellingar til að passa við hvar þau ættu að vera á myndinni og hvað þau vildu vera að gera. Myndirnar voru settar í tölvuna og svo fengu börnin að velja hvaða ljósmynd ætti að prenta.

5. Skref: Búa til sögu um myndina

Kennari hjálpaði börnunum að skrá niður söguna sína. Hér eru tvö dæmi til viðbótar um sögur og svo nokkur dæmi um myndir í lokin.

Ég er að berjast við drekann. Hann dó. Hann ætlaði að spúa eldi á sundlaugina. Kópavogslaug. Hann náði því ekki og öllum leið vel og fóru í sund.

Ég er að klappa drekanum mínum í fyrsta skipti. Spúandi drekanum. Ég var að fá hann. Hann er góður og er alltaf að leika sér. Ég er að leika við hann. Við förum í feluleik og kasta bolta á milli. Við fljúgum líka til Afríku og tölum við mannfólkið. Við förum líka til sjóræningjanna. Við erum ekki hrædd við þá því að drekinn getur spúið eldi á þá. Við fljúgum líka yfir eldgos. Það gýs en við náum að komast fram hjá því.

Síðast breytt
Síða stofnuð