Leikur með myndvarpa
Myndvarpinn er algert töfratæki og við notum hann oft bæði í leik og listsköpun. Það er svo heillandi hvernig það sem leggst á hann varpast upp á vegg og þó að mörg börn byrji á því að hrúga ofan á myndvarpann þá er spennandi að fylgjast með því þegar þau átta sig betur á hvernig er hægt að stjórna því sem sést á veggnum.
Mörg börn fá snemma áhuga á bókstöfum og þess vegna er upplagt að hafa stafi aðgengilega til að blanda með öðru leikefni. Hér eru börnin að nota bókstafi í skuggaleik með myndvarpa.
Úmísúmí stærðfræðiofurhetjurnar
Við sáum Úmísúmí-þátt (Umizoomi) sem krakkarnir höfðu kynnt fyrir okkur kennurunum og fjallaði um formþjófinn og hvernig stærðfræðiofurhetjurnar Georg, Millý og Búi björguðu málunum með því að búa til hin ýmsu farartæki úr formum. Við prófuðum síðan að búa til farartæki úr alls kyns lituðum formum á myndvarpa og lékum okkur með spil og púsl sem tengdust formpælingum.
Skuggamyndir
Myndvarpinn getur verið líka verið sniðugt hjálpartæki í sögugerð og frásögn. Börnin klippa út fígúrur og varpa þeim upp á vegg. Síðan segja þau söguna fyrir hópinn og hreyfa skuggafígúrurnar til að skapa líf í frásögninni. Þetta er góð leið til að fá feimin börn til að segja sögur, því að hin börnin horfa ekki beint á þau á meðan.