Galdraseiður á ljósaborði

Í þessari viku vorum við að brugga galdraseið í Stafagaldri. Við byrjuðum á að syngja saman nornalagið okkar Immu sem við köllum Djimm Djamm Djei. Myndskeiðið hér fyrir neðan sýnir smá brot af því. Á eftir fengu börnin að búa til uppskrift að galdraseiði með því að setja hluti í "pottinn" og breyta um lit á ljósaborðinu.

Myndskeið

Galdraseiður barnanna

Það var úr miklu að velja af alls konar skrýtnum hlutum. Hvert barn valdi hlut til að bæta í seiðinn. Við klöppuðum saman atkvæðin og síðan skrifaði barnið upphafsstaf hlutsins með töflutússi á ljósaborðið.

Að gamni setti ég hér að ofan inn mynd af málverki eftir Joseph Wright frá 1766 af því að mér fannst svipurinn á börnunum tveimur þar minna á stemmninguna hjá okkur við ljósaborðið. Svo er líka eins konar galdrablær yfir vísindunum hjá Wright líka, alveg eins og hjá okkur.

Galdraseiður á blaði

Þegar við vorum búin að gera galdraseið á ljósaborðinu fengu börnin risastór blöð og teiknuðu á það kringlóttan pott. Síðan teiknuðu þau alls konar hluti sem þau vildu hafa með í galdraseiðnum og þau ákváðu saman hvers konar galdramátt seiðurinn þeirra hefði.

Galdrakötturinn sem eldaði vandræði

Við enduðum daginn með því að ég las fyrir börnin skemmtilega bók um galdrakött sem ætlaði að elda súpu fyrir nornina sína en greip óvart galdrabók í hillunni í stað matreiðslubókar. Þar fyrir utan var hann alltaf að breyta upskriftinni smá svo að fyrst breytti hann norninni í frosk og síðan í hund - en allt endaði samt vel í lokin. Bókin heitir: The Witch's Cat and The Cooking Catastrophe: A fantastical tale of magic, mischief and mishap!

Síðast breytt
Síða stofnuð