Mjólkurgaldur

Þetta er vel þekkt tilraun sem er alveg heillandi að fylgjast með vegna þess hvernig litirnir hreyfast í mjólkinni. Maður hellir nýmjólk í disk, lætur nokkra dropa af matarlit út í (án þess að hræra) og dýfir svo eyrnapinna með uppþvottalegi í blönduna - og sér galdurinn gerast!

Hvernig virkar það?

Sápusameindirnar eru með vatnsfælinn og vatnssækinn enda. Sá vatnssækni tengist fljótt vatnssameindum og síðan sækist vatnsfælni endinn eftir að tengjast hlutlausri sameind, í þessu tilviki fitunni í mjólkinni. Við þetta kemst hreyfing á vökvann, og matarliturinn sem flýtur ofan á berst einfaldlega með straumnum. Hreyfingin hættir þegar sápan hefur dreifst jafnt um mjólkina.

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan notuðum við fyrst léttmjólk og við komumst að því að þar er betra að nota nýmjólk þar sem hún er feitari. Sápan á því auðveldara með að finna fitusameindir. Kaffirjómi virkar jafnvel enn betur ens og sést í lokin. Venjulegur 38% rjómi er hins vegar of þykkur til að tilraunin komi vel út, auk þess sem matarlitur hefur tilhneigingu til að sökkva í honum í stað þess að fljóta ofan á.

Myndskeið

Slökunartónlist

Það er svo fallegt og róandi að gera mjólkurgaldur, og það styrkir þá tilfinningu enn meira ef maður spilar slökunartónlist um leið og börnin gera tilraunina. Ég notaði lagið "Morgunn við hafið" sem er hluti af Vináttuverkefni Barnaheilla. Það má finna á Spotify ásamt öðrum lögum úr því verkefni.

Það er mikilvægt að börnin skilji að þau þurfa að hreyfa eyrnapinnann ákaflega rólega í mjólkinni, því að annars blandast allir litirnir strax saman í óspennandi brúnan lit svo ekki verður aftur snúið.

Orðaforði og pælingar

Tilraunin gefur tilefni til að ræða ýmislegt til að auka skilning og þekkingu barnanna og auk þess að styrkja orðaforða þeirra og þannig dýpka upplifunina.

Það er hægt að tala um muninn á undanrennu, léttmjólk, nýmjólk og rjóma. Hvað er fita? Hvernig getur verið vatn í mjólk? Eru einhver önnur efni í mjólk? (Vítamín, kalk).

Hvað er uppþvottalögur? Áður en við setjum hann í mjólkina með eyrnapinnanum er gott að spyrja hvað börnin halda að muni gerast.

Hvernig getum við lýst mynstrunum og hreyfingunni sem við sjáum í lituðu mjólkinni? Orð eins og krúsidúllur, doppur, sveiflur, bylgjur, hvirfill, straumar, snúningar.

Það er líka hægt að spyrja um hvaða tilfinningu börnin fá við að gera svona tilraun og hvað þau hugsa um á meðan.

Síðast breytt
Síða stofnuð