Rannsóknarstofa galdrakarlsins

Galdrakarlinn á risastóra vísindabók sem hann heldur fram að sé galdrabók. Hann reynir að vekja aðdáun okkar og undrun með því að gera tilraunir, og það tekst bara furðu vel hjá honum. Þetta er svo spennandi, en er það galdur eða vísindi?

Vinnustundin í þessari viku var helguð vísindatilraunum og við gerðum þrjár mismunandi tilraunir úr Stóru tilraunabókinni sem allar voru með vatni og matarlit. (Ég mæli með að kennarinn sjái um matarlitinn svo að hann fari ekki óvart í fötin).

Fyrst síróp, síðan olía og svo græna vatnið. Börnin voru hissa þegar vatnið fór undir olíuna.

1. Litablöndun í vatni

Í þessari tilraun litum við vatn með matarlit og sjáum hvernig ljós sem skín gegnum það lætur litina blandast. Við völdum gult og blátt og sáum hvernig blái liturinn virðist grænn þegar hann er skoðaður gegnum gula vökvann.

Þetta byrjar vel. Bara það að fylgjast með bláum litadropum dansa í vatninu er heillandi og fallegt

Börnin fengu öll að setja flöskuna með bláu vatni ofan í gula vatnið.

Okkur fannst svo skrýtið að vatnið leit út fyrir að vera grænt þó að við vissum vel að það væri blátt.

2. Vökvi í lögum

Í þessari tilraun notar maður síróp, ólíu og litað vatn sem er hellt ofan í stóra glæra krukku. Vökvarnir þrír skiljast í sundur í þrjú lög. Neðst er sírópið, síðan vatnið og efst flýtur olían. Þetta gerist vegna þess að vökvarnir eru misjafnlega eðlisþungir eða þéttir. Það er gaman að setja olíuna á undan vatninu vegna þess að þá búast börnin við að vatnið leggist ofan á hana og verða hissa þegar það gerist ekki.

Sumir smáhlutir sem við settum í krukkuna sukku til botns. Aðrir flutu í mismunandi lögum, eftir því hve eðlisþungir þeir eru. Börnin giskuðu fyrirfram á hvar hver hlutur myndi lenda.

Við byrjuðum á að setja síróp í krukkuna. Ég leyfði börnunum að setja fingurinn undir bununa til að smakka.

Fyrst settum við hænuegg ofan í krukkuna. Það lagðist ofan á sírópið. Ef eggið flýtur á vatninu er það orðið of gamalt.

Börnin skiptust á að setja hlut í krukkuna og giska á hvar hann myndi fljóta. Við teiknuðum það síðan upp.

3. Flöskusílófónn

Við notuðum glös í staðinn fyrir flöskur í sílófóninn okkar. Maður slær á hvert glas um sig með teskeið til að athuga hvernig hljómurinn breytist. Því meira vatn sem er í glösunum, þeim mun styttri er loftsúlan sem titrar í hverju glasi og því hærri hljómur heyrist úr henni. Með því að bæta vatni í glösin eða hella úr þeim er hægt að búa til hreina tóna og spila tónstiga á þau. Neðst á síðunni má sjá lítið myndskeið þar sem Kjalar kennari spilar Gamla Nóa og krakkarnir syngja með.

Börnin náðu sér í vatn til að hella í glösin.

Ég setti dropa af matarlit út í vatnið til að gera sílófóninn okkar fallegri.

Börnin fengu öll að spila tónlist á sílófóninn okkar.

Gamli Nói

Síðast breytt
Síða stofnuð