Vináttutöfratákn

Við hjálpumst að við að búa til risastórt vináttutöfratákn á gólfinu. Til þess að tryggja að galdurinn virki vel verðum við að tengja alla punktarna saman en þeir eru sex. Töfratáknið býður upp á bæði læsisvinnu og stærðfræðilegar pælingar. Það líkist demanti svo að upplagt er að enda stundina á að syngja saman "Viltu muna að vináttan er verðmætust eðalsteina" (Lag: Gull og perlur).

Það er alveg yndislegt að fylgjast með sammvinnu barnana þegar þau eru að hjálpast að við að skreyta vináttutáknið með dómínókubbum í alls konar litum. Ég klippti saman lítið myndskeið til að sýna þetta. Það má sjá hér að neðan.

Ferlið

  • Fyrst festum við sex rauða punkta í hring á gólfið með eins miklu millibili og við gátum. Síðan völdum við punkt til að byrja á og strekktum garn á milli hans og einhvers annars. Börnin skiptust svo á að draga garnið á milli punktanna einn af öðrum þangað til að búið var að teikna upp öll strikin. (Okkur tókst næstum að klára það án þess að þurfa að klippa á bandið).

  • Þegar vináttutáknið var þannig komið með útlínur styrktum við vinaböndin með því að leggja marglita dómínókubba ofan í þær. Útkoman er stórglæsileg.

  • Síðan kemur að því að velja vináttuorð til að setja í reitina inni í töfratákninu. Börnin koma með tillögur og kennarinn skrifar orðin og orðasamböndin niður á litla miða og kemur fyrir inni í tákninu.

  • Hægt er að syngja saman vináttulagið "Gull og perlur" í lokin.

Stærðfræðilegar pælingar

Það er mjög margt stærðfræðilegt sem hægt er að skoða og tala um í sambandi við töfratáknin: punktarnir eru 6, línur frá hverjum punkti eru 5 en samanlagt eru línurnar 5+4+3+2+1=15, formin sem myndast inni í sexhyrningnum eru þríhyrningar og ferhyrningar: í miðjunni eru 6 ferhyrningar (ekki rétthyrndir að vísu) en allt í kringum eru þríhyrningar, samtals 16 talsins.

Það væri líka gaman að bera þetta saman við mynstrin sem koma þegar punktarnir eru annaðhvort færri eða fleiri.

Myndskeið með hópi fjögurra ára barna

Síðast breytt
Síða stofnuð