Óskabrunnur

Það var sannkallaður stafagaldur þegar fjögurra og fimm ára börnin breyttu glærum með límbandi í fallega, litríka bókskafi. Galdrakarlinn hafði lagt lítinn prins í álög þannig að hann myndi þurfa að vera froskur þangað til að hann væri búinn að læra alla bókstafina með því að horfa ofan í óskabrunninn. Sem betur fer komum við börnin og sýndum honum hvernig brunnurinn virkar og hvernig það er hægt að sjá fallega, litríka stafi í honum.

Myndskeið

Sagan um óskabrunninn

Einu sinni fyrir langa löngu var lítill prins sem fannst gaman að leika sér í skóginum. Honum fannst hins vegar ekki gaman þegar kóngurinn og drottningin sögðu að hann þyrfti að fara í skóla til að læra að lesa. Honum fundust bókstafirnir bara blandast saman og ekki hægt að þekkja þá í sundur.

Hann var meira að segja búinn að semja vísu um hvað honum fannst leiðinlegt að læra bókstafi. Viljið þið heyra hana?

Bjánalegir bókstafir
blandast allir saman.
Mig langar ekki að læra þá
- að LEIKA, það er gaman!

Litli prinsinn vildi miklu frekar vera allan daginn að leika sér í skóginum og að skoða og rannsaka allt sem hann fann. Hann var til dæmis búinn að finna fallegan kringlóttan óskabrunn í einu rjóðrinu í skóginum. Brunnurinn lýsti svo fallega og prinsinn var að reyna að átta sig á því hvernig hann virkaði.

Nú vildi þannig til að einmitt þá kom vondur galdrakarl fljúgandi á kústinum sínum. Prinsinn hafði verið að söngla litla vísuna sína og galdrakarlinn heyrði það og hló með sjálfum sér. „Hah, hah, nú ætla ég að vera reglulega vondur og hrekkja þennan litla prins sem nennir ekki að læra að lesa.“

Hann flaug að prinsinum og sagði við hann: „Nú legg ég þig í álög, litli prins. Ég breyti þér í frosk, og ég legg það á þig að þú getir ekki losnað úr þeim álögum og orðið aftur að strák fyrr en þú ert búinn að læra alla bókstafina. Og ekki nóg með það, þú verður að fá þennan óskabrunn til að sýna þér stafina!“

Greyið froskurinn! Þarna sat hann við óskabrunninn og horfði niður í vatnið. Hann reyndi að óska sér að það birtust bókstafir í vatninu. En ekkert gerðist! Þangað til ...

Hér er sagan til útprentunar (PDF-skjal).

Verkefnislýsing

Börnin fengu blað með útlínu af bókstafnum sínum. Þau festu glæru ofaná og byrjuðu síðan að "fylla út" stafinn með litlum límbandsbútum. Við vorum að hvetja þau til að láta límbandsbútana krossa yfir hvern annan til að tryggja að við myndum sjá sem flesta liti í óskabrunninum. Þegar glærustafurinn var tilbúinn var hann lagður inn á milli skautunarglerplatanna tveggja í óskabrunninum. Nú var hægt að skoða og stúdera litina og hvernig þeir voru að breytast þegar við vorum að snúa efri hringnum í brunninum. Svo fallegt! Útlínustafir til útprentunar

Við prufuðum líka að setja allar glærurnar í einu í óskabrunninn og það kom mjög fallega út. Næstum því eins og risastór demantur.

Á meðan börnin voru að bíða eftir að komast að óskabrunninum og sýna froskinum stafina sína fengu þau að lita bókstafinn á blaðinu með trélitum og æfðu sig líka að skrifa nafnið sitt. Við lögðum alla stafina á borðið og skoðuðum hvort við gætum skrifað einhver orð með þessum stöfum sem við vorum búin að kenna froskinum. Þessi hópur gat skrifað bæði Í-S og S-Í-S :)

Galdur eða vísindi?

Þó að mér finnist þetta vera bara galdur þá er líklega best að koma með smá vísindalega útskýringu á því hvað er að gerast. Óskabrunnurinn er í raun og veru skautunarsía (Polariskop) og ástæðan fyrir því að við sjáum litina hefur að gera með samliðun ljóssins. Vegna þykktarinnar og þess hvernig sían okkar snýr þá styrkjast sumar bylgjulengdir ljóssins en aðrar deyfast. Það þýðir svo aftur að við sjáum mismunandi liti. Ari Ólafsson eðlisfræðingur hefur gert stutt myndskeið til að útskýra ljósskautun á alþýðlegan hátt. Það má sjá hér hjá Vísindasmiðjunni eða hér á YouTube.

Ég keypti mitt Polariskop hjá Krumma ehf í Grafarvogi en það er hægt að búa til einfaldari útgáfu með því að nota skautunarsíur (glærur sem virðast svolítið gráar og skauta ljósið sem fer í gegnum þær). Það er ekki auðvelt að finna þær hér á landi, en Ari Ólafsson tjáir mér í tölvupósti að Vísindasmiðjan sé tilbúin að selja A3 skautunarsíur til leikskóla á kostnaðarverði meðan birgðir endast. Tvær slíkar síur saman kosta um 6.000 kr. Auk þess bendir Ari á spennandi möguleika: að leikskólar geti fengið skammtímalán á leikskólakassanum sem Vísindasmiðjan hefur búið til, en í honum er ýmislegt spennandi og þar á meðal skautunarsíur.

Síðast breytt
Síða stofnuð