Ævintýraskógurinn okkar
Á Kársnesinu erum við með Ævintýraskóg sem við notum mjög mikið í útináminu. Hann býður upp á mikla og fjölbreytta möguleika, þótt svolítið hafi þrengt að honum á allra síðustu árum vegna nýbygginga í kring. Hann er samt alltaf jafn ævintýralegur.
Að smíða í skóginum
Í vetur voru 4-5 ára börnin að smíða stórglæsilegan kastala sem varð flottari með viku hverri. Það var gaman fyrir hina mismunandi hópa að sjá hvað hinir hóparnir höfðu verið að vinna að þegar þeir voru í útinámi í ævintýraskóginum.
Að elda í skóginum
Í skóginum erum við með bálstæði sem hægt er að nota til að baka, sjóða og steikja ýmsan mat. Popp er alltaf vinsælt, en það skemmtilegasta var þegar við fengum að sjóða afangskartöflur úr skólagörðunum sem eru alveg í næsta nágrenni.
Hvetjandi fyrir ímyndunaraflið
Ævintýraskógurinn er mjög hvetjandi umhverfi fyrir hugmyndarík börn sem fá alls konar hugmyndir og sjá óvænt mynstur. Það var minnisstætt þegar við fundum krókódíl sem galdrakarlinn hafði greinilega lagt í álög. Mikið var reynt til að lífga hann við, m.a. að gefa honum köngla að éta.