Dýraleikur galdrakarlsins

Viti menn, það eru dýr út um allt! Galdrakarlinn læddist inn í leikskólann og breytti öllum börnunum í dýr. Skemmtilegur leikur þar sem dýranöfn eru skrifuð á trékubba og þeir síðan faldir út um allt (oftast festir einhvers staðar með kennaratyggjói). Börnin leita og finna kubbana og sjá um leið hvaða dýr galdrakarlinn breytti þeim í. Það er eitt dýr á mann þannig að ef börnin finna fleira kubba þá reynir á að halda því leyndu svo að öll börnin á endanum geti fundið dýrið sitt.

Sagan um galdrakarlinn

Einu sinni þegar galdrakalinn var alveg rosalega stríðinn datt honum í hug að breyta leikskólanum í dýragarð. Hann læddist inn með töfrasprotann sinn á lofti og var alveg að fara að galdra þegar eitt barnanna sá til hans og kallaði: „Felið ykkur öll fyrir galdrakarlinum!“.

Börnin hlupu út um allt til að finna góða felustaði, en um leið sveiflaði galdrakarlinn sprotanum sínum og for með galdraþulu: „Abrakadabra, Búbbedí býr, ég breyti ykkur í alls konar dýr!“ Og hana nú! Börnin breyttust strax í dýr sem voru föst á felustöðunum.

Munum við nokkru sinni finna þau öll aftur? Og komumst við þá að því hvaða börn breyttust í hvaða dýr?

Felustaðir

Það var mjög gaman að finna felustaði fyrir dýrakubbana. Ég faldi þá í lok dags þannig að börnin vissu af því, að þegar þau mættu í leikskólann daginn eftir myndi leikurinn byrja.

Sumir leynistaðir reyndist betri en aðrir. Til dæmis er ennþá kubbur fastur undir borðplötu inni á deild og við bíðum spennt að sjá hvenær hann verður fundinn.

Teikna og skrifa

Þegar börnin fundu kubbinn sinn og áttuðu sig á hvaða dýr galdrakarlinn hafði breytt þeim í, fór fram smá læsisvinna. Hvert barn teiknaði dýrið sitt á blað og skrifaði nafn þess við myndina. Síðan skrifuðu þau eigið nafn líka svo að allir gætu séð hver fann hvað (og svo að við kennararnir gætum fylgst með því hvaða börn áttu ennþá eftir að finna dýrið sitt).

Við fundum uglu og björn

Sjáðu dýrið mitt, Birta!

Myndirnar voru hengdar upp á vegg með kubbunum hjá, og innan skamms var kominn heill dýragarður. Í samverustundinni sungum við síðan lagið: "Ég fór í dýragarð í gær og gettu hvað ég sá". Þá gafst líka tækifæri fyrir börnin að segja vinum sínum frá því hvar dýrið þeirra hefði verið í felum þegar þau fundu það.

Galdurinn í leiknum

Þetta er dæmi um leik þar sem galdurinn felst í persónulegri tengingu barnsins við dýrið sem það finnur vegna þess að í sögunni hefur það sjálft breyst í dýrið og er að losna úr álögum. Þessi persónulega tenging myndar áhuga, örvar ímyndunarafl, styrkir minni og gerir almennt að verkum að barnið bæði lærir meira og finnst meira gaman að leiknum. Upplifunin öll verður þannig mjög eftirminnileg.

Strákarnir breyttust í ref og hana

Viðbótarhugmynd

Í samverustundinni vorum við að skoða öll dýrin sem búið var að finna. Ég benti börnunum á það að þau vöru öll með annaðhvort einu eða tveimur atkvæðum. "Af hverju haldið þið að það sé?" spurði ég. Þau voru fljót að átta sig á því að kubbarnir voru ekki nógu stórir til að löng dýranöfn kæmust fyrir. Ég náði síðan í tvö blöð og skrifaði 3 á annað og 4 á hitt. Síðan bað ég börnin að hjálpa mér að finna dýranöfn með þremur og fjórum atkvæðum. Það gekk mjög vel hjá þeim. Hér er listinn þeirra yfir dýr með fjórum atkvæðum: Leðurblaka, blettatígur, einhyrningur, páfagaukur, risaeðla, náhyrningur, áðnamaðkur.

Síðast breytt
Síða stofnuð