Orðaspjöld

Þessi æfing hentar best fyrir elstu börnin sem eru nálægt því að verða læs. Á myndaspjöldunum eru tíu myndir sem byrja á sama bókstaf, og orðin eru síðan á sérspjöldum. Börnin finna út hvaða orð passa við hvaða myndir og leggja síðan orðið ofan á viðeigandi mynd.

Til að hjálpa börnunum að taka eftir einkennum orðanna sem þau eru með fyrir framan sig er hægt að spyrja spurninga eins og: "Er orðið langt eða stutt?", "Hvaða bókstaf endar orðið á?", "Heyrist Mmm í orðinu?","Geturðu heyrt hvaða hljóð kemur á eftir fyrsta hljóðinu í orðinu?"

Á myndskeiðinu er stelpa að leita að orðinu "gíraffi" og finnur fyrst orðið "gaffall" vegna þess að hún leitar að f-hljóði inni í orðinu, en þegar hún skoðar það betur þá endar það ekki á i. Þá spyr ég hana hvort hún getur fundið annað orð sem er líka með f en endar á i, og þá finnur hún rétta orðið.

Ef barn tekur t.d. spjald og spyr, "Stendur krókur hérna?", þá getur maður spurt "Hvað fær þig til að halda það?" og þar með fá innsýn í hugsunarhátt viðkomandi barns. Önnur leið er að taka 2-3 spjöld og segja við það: "Eitt af þessum orðum er krókur; hin orðin eru kisa og kappakstursbíll. Hvaða orð heldur þú að sé krókur?"

Síðast breytt
Síða stofnuð