Galdra-villikötturinn

Nei, nú er nóg komið! Nú er galdrakötturinn líka farinn að stela alveg eins og galdrakarlinn. Og hann tekur nánast allt sem hann nær að festa kló í - eins og sannkallaður villiköttur! Sjáðu bara alla þessa hluti sem ligga hér í einni hrúgu. Förum strax í málið og reynum að fá yfirsýn og ná dótinu aftur. Spilið með kringlótta spjaldinu og tilheyrandi myndaspjöldum er danskt og heitir Vildkatten. Það er frábært í málörvun og ég mæli með að þið grípið það með heim í næstu ferð til Köben.

Leitum að myndunum

Einfaldasta leiðin til að spila spilið er að velja myndir og finna hvar samsvarandi mynd er á spilaplötunni. Börn eru misþolinmóð og misgóð að einbeita sér svo að oft læt ég þetta vera samvinnuverkefni en yfirleitt grípum við spilið þegar við erum með smá biðstund, t.d. af því að sumir hópar séu búnir fyrr með verkin sín og þá nota börnin bara spilið eins og þau vilja.

Þetta er líka skemmtilegt fjölskylduspil því að fullorðnir eru ekki endilega fljótari að finna myndir í fjöldanum.

Vildkatten fæst í mörgum útgáfum í Danmörku

Börnin nota oft fingurna til að telja atkvæðin eins og hér

Klöppum atkvæði

Það felst mikil málörvun í spilinu í sjálfu sér vegna þess að það eru svo margir hlutir á myndunum sem börnin þekkja jafnvel ekki, þannig að þetta bæði styrkir og útvíkkar orðaforðann. En til að tengja enn meiri málörvun í spilið útbjó ég líka spjöld sem börnin reyna að fylla myndum. Á spjöldunum eru reitir frá einu upp í sex atkvæði. Börnin velja sér mynd, átta sig á hvað er á myndinni, klappa atkvæðin og setja myndina á réttan reit á spjaldinu.

Það er svo dásamlegt að fylgjast með þeim þegar þau uppgötva hluti eins og til dæmis að rosalega mörg orð eru með tveimur atkvæðum en mjög erfitt er að finna orð með sex atkvæðum. Til að fylla þann reit hjálpar oft persónuleg og skemmtileg túlkun barnanna á myndunum sem þau eru með (og hugmyndaflug þeirra) til að búa til löng orð eins og til dæmis: vél-til-að-hræ-ra-deig = 6 atkvæði :)

Atkvæðaleikur til útprentunar: Hversu_langt_er_orðið.pdf

Myndskeið

Myndskeiðið endar á því að stelpa finnur mynd af gleraugum. Hún klappar atkvæðin og ég er að búast við því að hún setji gleraugun á reit með þremum atkvæðum. Þess vegna verð ég mjög hissa þegar hún stendur allt í einu upp og setur myndina á alveg hárréttan stað á stóru spilaplötunni. Hún mundi greinilega nákvæmlega eftir því hvar gleraugun ættu að vera, snillingurinn!

Síðast breytt
Síða stofnuð