Töfrastiginn
Náum við að giska á rétta orðið áður en að galdrakarlinn breytir okkur í frosk? Þetta er nýtt afbrigði af hinum góða gamla hengingarleik en hér breytumst við í frosk ef við náum ekki að giska á orðið áður en við erum komin alla leið niður á neðsta þrepið í töfrastiganum.
Leikurinn byrjar með að einhver ákveður orð til að giska á. (Hér var það orðið FROSKUR). Neðst á töflunni eru sett jafn mörg strik og orðið er langt (_ _ _ _ _ _ _). Börnin skiptast nú á að giska á bókstaf sem þau halda að sé í orðinu. Ef það er rétt er stafurinn settur inn í orðið á viðeigandi reit, en ef ekki er hann settur á efsta þrepið í stiganum. Í hvert skipti sem er giskað er vitlaust bætist nýr stafur við á næsta þrep svo að við nálgumst að verða breytt í frosk eins og sést af myndinni á neðsta þrepinu.