Rímspil barnanna

Í þessu rímspili velja börnin sjálf rímorðin. Þau þurfa síðan að teikna og skrifa þau inn í hringlaga form sem þau klippa út og festa á spilaplötuna. Spilaplatan er hönnuð þannig að það eru tómar reitir þar sem myndir barnana eru settar inn. Í spilinu byrjum við á að hoppa milli rímrorðana en þegar við finnum einn af töfrahlutunum fjórum komumst við á stafrófsleiðina sem leiðir okkur beint til kastala galdrakarlsins.

Sagan

Einu sinni var galdrakarl sem átti heima í risastórum kastala langt í burtu. Galdrakarlinn vildi hafa kastalann sinn í friði og vildi alls ekki fá fólk í heimsókn. Þess vegna reyndi hann allt hvað hann gat að halda kastalanum sínum leyndum og gera erfitt að finna hann.

Til þess að geta fundið kastalann þurfti maður fyrst að finna einn af fjórum galdrahlutum sem hann hafði falið undir tvöfaldri töfrahulu. Þessir hlutir voru: galdraköttur, galdrahöttur, galdrapottur og galdrakústur. En ekki nóg með það. Maður þurfti nefnilega líka vera virkilega flinkur að ríma. Og jafnvel þó að maður fyndi einn af þessum fjórum hlutum var samt löng stafrófsleið upp að kastalanum sem þurfti að fara áður en maður gat bankað á hurðina hjá galdrakarlinum.

Haldið þið að þið getið leyst þessa erfiðu þraut, krakkar?

Verkefnið

Við byrjum á að nota rímkassann til að finna fullt af rímorðum og skrifa þau upp á töflu. Þetta er gert svo að börnin hafa seinna eitthvað til að velja úr þegar kemur að því að búa til spjöldin.

Í rímkassanum er fullt af hlutum sem við reynum að finna rímorð við

Börnin vinna saman tvö og tvö og ákveða hvaða rímorð þau vilja teikna og hver teiknar hvað. Þau þurfa bæði að teikna, skrifa og klippa út spjaldið.

Börnin búa sjálf til rímspjöldin

Rímspjöldin eru tilbúin. Nú getum við spilað rímspilið

Börnin mega nú velja hvar á spilaplötuna þau vilja setja sína mynd. Best er að hafa ekki rímorðin hlið við hlið því að það er skemmtilegara þegar við fáum að hoppa langt milli reita.

Rímspilið_sagan.pdf
Rímspilið_hringir.pdf
Rímspilið_myndir.pdf
Rímspilið_myndir2.pdf

Spilið

Börnin skiptast á að kasta teningi og færa peð milli reita (í myndskeiðinu er það dúkkan Dóra). Rímorðin eru í ytri hringnum og maður hoppar á milli þeirra. (Ef maður lendir t. d. á mynd með fíl þá hoppar maður yfir á myndina af bíl). En í hringnum eru líka reitir með töfratáknum: galdrahattur, galdraköttur, galdrapottur og galdrakústur. Þetta eru tálknin sem leyfa manni að komast í innri hringinn - eða "gorminn" - sem er stafrófsleiðin til galdrakarlsins.

Það kom fljótlega í ljós að til þess að við lendum ekki of snemma á töfratákni þá þurfti galdrakarlinn að fela þau undir galdrahulu svo að það sé ekki fyrr en í annað (eða jafnvel þriðja) skipti að maður finnur töfratáknið og kemst áfram í spilinu.

Þegar við erum komin í innri hringinn erum við alltaf að lenda á bókstaf. Við segjum nafn stafsins og finnum eitthvað sem byrjar á honum - eða athugum hvort hann sé til staðar í nöfnunum okkar.

Myndskeið með fjögurra ára börnum

Fyrsta útgáfa af rímspilinu

Í fyrstu útgáfu okkar af rímspilinu skrifuðu börnin líka fullt af stöfum sem voru sett inn á milli rímorðanna í stað þess að vera með innri og ytri hring. Við bjuggum til spilið í framhaldi af því að hafa verið með Stafagaldurssögustund með R-sögunni, en hún fjallar einmitt um rím.

Síðast breytt
Síða stofnuð