Rúsínugaldrakarl

Þennan leik lærði ég fyrir löngu hjá starfssystur minni en hann er núna kominn í galdrabúning. Börnum finnst leikurinn skemmtilegur því að flestum finnast rúsínur góðar og það er spennandi að sjá hvað maður nær að taka margar rúsínur aður en galdrakarlinn kallar "Stopp!".

Hvernig er leikurinn?

Leggið rúsínur (eða eitthvað annað smátt, t.d. perlur) á alla reitina á galdrakarlsmyndinni. Stjórnandinn velur ”stoppreit” en heldur honum leyndum. Barnið tekur síðan rúsínurnar eina í einu og leggur á talnagrindina. Þegar barnið snertir rúsínuna sem er á stoppreitnum, kallar stjórnandinn: ”Stopp!” og barnið má ekki taka fleira rúsínur. Barnið skoðar hversu margar rúsínur það náði að fá og borðar þær :)

Það er hægt að láta börnin teikna sinn eigin galdrakarl og hafa hann etv. stærri, en einnig er hægt að prenta út þetta skjal með galdrakarlinum sem ég teiknaði.

Stærðfræðipælingar

Ég teiknaði galdrakarlinn svo að hann sé með 20 reitum raðaði töflunni upp þannig að það séu 10 reitir í hvorum dálki. Auk þess sem börnin auðvitað æfa sig í að telja rúsínur geta þau einnig æft sig í að þekkja og lesa tölur og e.t.v. jafnvel fengið fyrstu innsýn í tugakerfið þar sem þau sjá að t.d. 3 og 13 eru hlið við hlið.

Síðast breytt
Síða stofnuð