Þæfingarleikteppi
„Þetta er skemmtilegt, og ég held þetta er æðislegt!“ sagði strákur alveg uppnuminn þegar börnin á elstu deild fengu að þæfa fallegt leikteppi í haustlitum. Við vorum svo heppin að þæfingarlistarkonan Lisbeth Wahl kom í heimsókn í leikskólann til að aðstoða okkur með verkið og börnin unnu með henni í gegnum heilan dag – enda töluvert tímafrekt að þæfa.
Hér fyrir neðan getið þið skoðað lítið myndskeið sem sýnir ferlið og útkomuna mjög vel. Leikteppið myndar dásamlegan ramma fyrir leik barnanna og það skapast sannkallaðaður galdraheimur hvort sem leikefnið er fingurbrúður, ævintýralegir skrautmunir eða annar opinn efniviður.
Myndskeið
Haustið er líka bleikt!
Á meðan við vorum að leggja út ullina var mikið talað um haust og haustlitina. Þetta var í lok september og litabreytingar í náttúrunni farnar að vera sýnilegar. Einn strákurinn segir allt í einu að það vanti einn lit. "Við erum ekki með bleika ull," segir hann. Lisbeth sýndi honum hvernig han gat blandað saman hvítu og rauðu með því að tæta ullarlagða í sundur og nudda aftur saman. Strákurinn varð alsæll og tilkynnti: "Nú get ég klárað haustið, því haustið er líka bleikt!" Hann valdi sér síðan góðan stað á leikteppinu þar sem bleiki liturinn sést greinilega.
Þæfingarferlið
Þetta var í fyrsta skipti sem ég prófaði að þæfa, svo að það var frábært að hafa sérfræðing sér við hlið. Lisbeth kom með svokallað forfilt með sér frá Ítalíu sem við klipptum í stóran hring (150 cm í þvermál). Til að auðvelda ferlið fyrir börnin byrjuðum við með lítið svæði innst í hringnum. Þegar það var tilbúið stækkuðum við hringinn smátt og smátt. Undir forfiltinu vorum við með stórt stykki af bóluplasti en bólurnar hjálpa til við að nudda ullina þegar þæft er.
Fyrst lögðu börnin ullina svolítið þykkt (4-5 cm) ofan á forfiltið. Lisbeth sýndi okkur hvenig við gætum skapað litaspil með því að leggja aðra liti undir litinn sem við vildum hafa efst t.d. undir bláa litinn í ánni. Þannig koma skemmtileg litbrigði sem gera landslagið náttúrulegra og fallegra.
Næsta skref var að bleyta ullina með sápuvatni. Við notuðum til þess plastföskur með fullt af litlum götum í lokinu. Þegar ullin var orðin gegnblaut var henni þrýst niður og svo var lagt bóluplast yfir líka.
Nú tók við meira en klukkutíma vinna sem fólst í að nudda og berja og dansa ofan á teppinu. Sápan varð að froðu, ullarþræðinir kræktust saman og festust á forfiltið og við fengum öll útrás fyrir dansgleðina. Í lokin rúlluðum við teppi og plasti upp, vöfðum í handklæði og veltum undir fótunum fram og til baka.
Síðasta skrefið er svolítil erfiðisvinna. Til að ullin þæfist reglulega vel og þjappist saman svo að filtið verði sterkt og nægilega álagsþolið fyrir notkun í leik, verður nefnilega að lemja því fast í gólfið u.þ.b. 600 sinnum. Í myndskeiðinu sést þar sem ég er að taka þennan lokasprett í eldhúsinu heima og ég verð að viðurkenna að ég var með harðssperrur í marga daga á eftir!
Ef einhvern langar að vinna svipað verkefni með krökkunum skuluð þið endilega hafa samband við mig og fá enn nákvæmari lýsingar og ráðleggingar um ferlið.
Lisbeth Wahl
Við Lisbeth kynntumst á unglingsárum í Danmörku en hún er nú búsett í norðurhluta Ítalíu, þar sem hún starfar sem listakona og vinnur meðal annars með þæfingu. Haustið 2023 fékk Lisbeth boð um að dvelja í mánuð sem "Artist in Residence" í Textílsetrinu á Blönduósi og þá opnaðist möguleikinn á því að fá hana í heimsókn í leikskólann minn og vinna þetta dásamlega verkefni með okkur.
Daginn eftir var Lisbeth annar kennarinn á textílnámskeiði sem haldið var í húsnæði Menntasviðs HÍ í Stakkahlíð á vegum Faghóps um skapandi leikskólastarf. Hinn kennarinn var Guðrún Björnsdóttir. Sjá meira um hana hér.
Lisbeth hefur í framhaldi lýst ullarævintýrum sínum á Íslandi í tímaritsgreinum bæði í ítölsku (TessereAMano) og dönsku (Grima filteforening) tímariti um textíllist. Hér má sjá síðu hennar á Instagram.
Mynd birt með leyfi þátttaknda