Frosin í tíma og rúmi

Vondi galdrakarlinn hefur sveiflað töfrasprotanum sínum og fryst tímann. Grey börnin sem voru í dans og leik voru skyndilega hneppt í álög. Á listaverkum barnanna sjáum við þau sem steinstyttur. Bakgrunnur myndanna er búinn til úr öflugum galdralínum og litaspili sem tákna hvernig galdurinn var svo öflugur að börnin frusu í tíma og rúmi.

Börnin voru ótrúlega ánægð með útkomuna og þó að mig langaði mikið til þess að hengja upp myndirnar til sýnis, þá kom eiginlega ekki annað til greina en að leyfa þeim að taka listaverkin sín með sér heim samdægurs.

Ég var dolfallin yfir hversu einbeitt og vandasöm börnin voru á meðan þau voru að vinna verkefnið. Ég mun lýsa verkferlinu hér að neðan og mæli eindreigið með að aðrir kennarar prófi þetta líka.

Myndatökur og stoppleikur

Áður en ég tók myndirnar af börnunum lét ég þau fara í stoppleik til að hjálpa þeim að fá tilfinningu fyrir hinum mismunandi líkamsstellingum sem þau gætu "frosið" í. Við vorum ekki með tónlist svo að ég bað þau bara um að hoppa og skoppa og lék síðan galdrakarlinn sem kallaði út í salinn: "Ég frysti ykkur í tíma og rúmi!".

Þetta var mjög gaman - ekki síst af því að börnunum fannst orðasambandið mjög fyndið. Ég útskyrði fyrir þeim að "rúm" í þessu samhengi var ekki það sama og "rúm" til að sofa í ;) Þetta er semsagt skemmtilegt dæmi um margrætt orð sem getur e.t.v. verið kveikja til að skoða það fyrirbæri nánar.

Næst fór ég afsíðis með eitt barn í einu og við tókum fullt af myndum. Þau fengu að velja 1-4 myndir eins og þau vildu og þær voru síðan prentaðar tvær saman á blaði. Þær voru prentaðar í svarthvítu til að líkjast sem mest steinstyttum.

Börnin klipptu síðan út myndirnar (með smá aðstoð í kringum fingur og tær) og þau völdu staðsetningu fyrir þær á bakgrunninum þegar hann var alveg tilbúinn.

Tölustafir og galdralínur

Bakgrunnurinn var unninn í þremur skrefum. Fyrsta skrefið var að setja tölusetta punkta meðfram kantinum. Fjöldinn skiptir ekki öllu máli (á þessum myndum notuðum við tölustafina 1-6) en það er mikilvægt að hver tölustafur komi fram tvisvar sinnum því að næsta skref er að tengja saman eins tölustafi með galdralínum. Flest börnin gerðu krússidúllulínur en sum börn teiknuðu nokkurn veginn beinar línur.

Næst þegar ég geri þetta með hópi barna ætla ég annars að taka betur fram við þau að skrifa tölustafina á blaðið fremur en málningarlímbandið því að þeir gefa listaverkinu alveg sérstakan blæ.

Þriðja og síðasta skrefið er svo að lita bakgrunninn. Börnin fengu fyrirmæli um að reyna að skipta alltaf um lit í hvert sinn sem galdralínurnar sköruðust. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað þau voru öll þolinmóð við þessa vinnu, ekki síst af því að hjá sumum höfðu myndust mjög mörg svæði. Kannski var heppilegt að við náðum ekki að klára í fysta tíma því að þá komu börnin aftur fersk og spennt í næstu tíma til að klára.

Gleðisprengja

Börnin voru á leiðinni út til að fara aftur á sína deild en vildu endilega leika stoppleikinn einu sinni enn fyrst. "Hókus Pókus! Ég frysti ykkur í tíma og rúmi!"

Síðast breytt
Síða stofnuð